top of page
Search

Badmintonveisla í Strandgötu í heila viku

Updated: Apr 21

Það verður sannkölluð badmintonveisla í Strandgötunni næstu vikuna þegar keppt verður um Íslandsmeistaratitla í bæði einstaklings og liðakeppni í fullorðinsflokkum. Á sunnudag 21.apríl kl.16:30 og þriðjudag 23.apríl kl.17:30 mætast úrvalsdeildarliðin BH og BH/ÍA í baráttu um Íslandsmeistaratitilinn í liðakeppni. Fimmtudag 25.apríl til laugardags 27.apríl mun svo Meistaramót Íslands fara fram þar sem keppt verður um Íslandsmeistaratitla í einstaklings- og paragreinum. Strandgatan er komin í sparifötin og við vonum að sem flest taki þátt á einn eða annan hátt.


Dagskrá vikunnar


Eftirfarandi er gróf dagskrá vikunnar:


Sunnudagur 21.apríl

kl.10:00-12:00 - Æfingar samkvæmt dagskrá í Sportabler

kl.13:00-16:00 - Opin tími fyrir BH-inga og fjölskyldur

kl. 16:00-17:30 - Vöfflur og með því til sölu


Mánudagur 22.apríl Æfingar samkvæmt dagskrá í Sportabler


Þriðjudagur 23.apríl

kl.15:00-17:30 - Æfingar samkvæmt dagskrá í Sportabler

kl.18:00-19:00 - Pizza og kaldir drykkir til sölu

kl.20:00-23:00 - Hefðbundnar æfingar hjá fullorðinshópum


Fimmtudagur 25.apríl - Sumardagurinn fyrsti

kl.09:00-18:00 - Meistaramót Íslands

Engar æfingar þennan dag en öll velkomin í stúkuna að horfa á


Föstudagur 26.apríl

kl.16:00-21:00 - Meistaramót Íslands

Engar æfingar þennan dag en öll velkomin í stúkuna að horfa á


Laugardagur 27.apríl

kl.17:00 - Mottufrágangur strax að keppni og verðlaunaafhendingu lokinni - öll hjálp vel þegin


Hvetjum alla iðkendur til að fjölmenna á þessa viðburði og fylgjast með skemmtilegri keppni. Einnig hægt að bjóða sig fram í að starfa sem teljarar á Meistaramótinu og starfa í veitingasölu í fjáröflunarskini. Sjá nánar hér fyrir neðan.


Deildakeppni BSÍ 2023-2024


Keppt verður til úrslita í Úrvalsdeild Deildakeppni Badmintonsambands Íslands á sunnudag 21.apríl og þriðjudag 23.apríl í Íþróttahúsinu við Strandgötu í Hafnarfirði. Þar mætast liðin BH/ÍA og BH í baráttu um Íslandsmeistaratitil badmintonliða 2023-2024. Lið TBR sigraði keppnina á síðasta tímabili en sendi ekki lið til keppni í ár.

  

Fyrri leikur liðanna verður á sunnudag kl.16:30 og seinni leikurinn á þriðjudag kl.17:30. Spilaðar eru fimm viðureignir í hvorum leik, einliðaleikur, karla og kvenna, tvíliðaleikur karla og kvenna og tvenndarleikur. Reikna má með að hver viðureign taki um 30 mínútur og leikurinn í heild því um tvær og hálfa klukkustund. Öll áhugasöm eru velkomin í stúkuna í Strandgötu og verður veitingasala á staðnum. 

 

Í lið BH/ÍA eru þau Gabríel Ingi Helgason, Gerda Voitechovskaja og Róbert Ingi Huldarsson frá BH og Drífa Harðardóttir frá ÍA. Gerda er núverandi Íslandsmeistari í einliðaleik kvenna og sigraði þrefalt á Meistaramóti BH og RSL í nóvember. Gabríel Ingi er margfaldur Íslandsmeistari unglinga í badminton og í 5.sæti á styrkleikalista BSÍ í einliðaleik. Róbert Ingi hefur verið á meðal fremstu einliðaleiksspilara landsins undanfarin ár og tvisvar unnið til silfurverðlauna á Meistaramóti Íslands. Skagamaðurinn Drífa er margfaldur Íslandsmeistari í tvíliða- og tvenndarleik og auk þess heimsmeistari öldunga 45+ í báðum greinum.


Í liði BH eru þau Brynjar Már Ellertsson, Davíð Phuong Xuan Nguyen, Natalía Ósk Óðinsdóttir, Stefán Logi Friðriksson, Sólrún Anna Ingvarsdóttir og Una Hrund Örvar. Þeir Brynjar og Davíð eru sterkir tvíliða og tvenndarleiksspilarar sem eiga bæði unglingameistaratitla og verðlaun í fullorðinsflokkum á ferilskránni. Natalía Ósk er á meðal bestu tvíliðaleiksspilara landsins en hún er í 4.sæti á styrkleikalista BSÍ í greininni. Stefán Logi er ungur og efnilegur leikmaður sem nýlega varð þrefaldur Íslandsmeistari í U17 og kemur inn sem varamaður í liðið. Sólrún Anna er öflugur einliðaleiksspilari sem náði m.a. frábærum árangri á RSL Iceland International mótinu 2023. Una Hrund er á meðal bestu tvíliða og tvenndarleiksspilara landsins en hún er efst á styrkleikalista BSÍ í tvíliðaleik og í 2.sæti í tvenndarleik.


Liðsuppstillingar munu birtast hér á tournamentsoftware.com 2 klst fyrir leik og úrslit strax að keppni lokinni. Keppni í neðri deildum Deildakeppni BSÍ lauk um síðustu helgi. Liðið TBR unglingar sigraði í 1.deildinni en lið Aftureldingar í 2.deild. Nánari upplýsingar hér.


Meistaramót Íslands 2024


Meistaramót Íslands, þar sem keppt verður um Íslandsmeistaratitla í fullorðinsflokkum, hefst í Strandgötu á Sumardaginn fyrsta. 133 keppendur frá 8 félögum taka þátt en spilað verður í úrvalsdeild, 1.deild og 2.deild fullorðinna. Keppendur frá BH eru 48 talsins. Á meðal keppenda er allt besta badmintonfólk landsins og munu allir Íslandsmeistarar í úrvalsdeild frá því í fyrra mæta til að verja titla sína.


Daníel Jóhannesson, TBR, sigraði í einliðaleik karla í fyrra þriðja árið í röð en hann mætti í úrslitum margföldum Íslandsmeistara, Kára Gunnarssyni úr TBR, sem mætir einnig til keppni í ár. Gabríel Ingi Helgason, BH, Róbert Þór Henn, TBR, og Gústav Nilsson, TBR, hafa allir unnið eitt af sjö stigamótum vetrarins og verða einnig á meðal keppenda á Meistaramótinu.


Í einliðaleik kvenna er Gerda Voitechovskaja, BH, ríkjandi Íslandsmeistari en hún vann sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í fyrra og sigraði einnig á Meistaramóti BH og RSL í nóvember. Andstæðingur hennar í úrslitunum í fyrra, Sigríður Árnadóttir úr TBR, hefur sigrað á þremur mótum í vetur og mætir til keppni um helgina. Einnig er á meðal keppenda hin unga og efnilega Lilja Bu sem hefur sigrað á tveimur stigamótum í vetur.


Þeir Davíð Bjarni Björnsson og Kristófer Darri Finnsson úr TBR hafa verið ósigrandi í mótum vetrarins og eru ríkjandi Íslandsmeistarar í tvíliðaleik karla frá árinu 2019. Daníel Jóhannesson og Jónas Baldursson úr TBR sem hafa veitt þeim harðasta keppni undanfarin ár mæta einnig til keppni auk þeirra Daníels Thomsen og Bjarka Stefánssonar sem mættu þeim í úrslitaleiknum í fyrra.


Arna Karen Jóhannsdóttir og Sigríður Árnadóttir úr TBR eru ríkjandi Íslandsmeistarar í tvíliðaleik kvenna og unnu einnig 2022. Andstæðingar þeirra í úrslitunum í fyrra, Una Hrund Örvar og Sólrún Anna Ingvarsdóttir úr BH, mæta einnig til keppni í ár. Á meðal keppenda í tvíliðaleik kvenna eru auk þess Heimsmeistararnir og margfaldir Íslandsmeistarar Drífa Harðardóttir úr ÍA og Elsa Nielsen úr TBR og fleiri öflugar konur sem munu eflaust gera harða baráttu að titlinum í greininni.


Í tvenndarleiknum eru bæði Íslandsmeistararnir frá því í fyrra, Davíð Bjarni Björnsson og Arna Karen Jóhannsdóttir úr TBR, á meðal keppenda og Íslandsmeistararnir í þrjú ár þar á undan Drífa Harðardóttir úr ÍA og Kristófer Darri Finnsson úr TBR. Stigahæstu leikmenn vetrarins Sigríður Árnadóttir og Daníel Jóhannesson úr TBR og fleiri sterk pör munu án efa veita þeim harða keppni.


Keppni hefst á Sumardaginn fyrsta kl.9:00 og lýkur á laugardaginn með úrslitaleikjum. Smellið hér til að skoða niðurröðun og tímasetningar einstakra leikja.


Teljarar óskast til starfa


Öllum áhugasömum iðkendum í U13 og eldri sem hafa einhverja reynslu af keppni býðst að starfa sem teljarar á mótinu. Teljarar fá bíómiða, samloku og drykk að launum fyrir hverja vakt en hægt er að velja á milli eftirfarandi vakta:


Hægt er að skrá sig í Sportabler eða með því að senda póst á bh@bhbadminton.is og gildir reglan fyrstir koma fyrstir fá.


Fjáröflunarmöguleiki í veitingasölu


BH-ingum býðst að safna í sinn badmintonsjóð með því að taka þátt í veitingasölu á Meistaramótinu. Hægt er að taka þátt með því að útvega veitingar og/eða starfa við afgreiðslu veitinga. Skráning fer fram í Sportabler eða í gegnum netfangið bh@bhbadminton.is.



Hlökkum til að sjá ykkur sem flest í badmintonveislunni í Strandgötunni þessa vikuna.




bottom of page