top of page

Stofnun félagsins

Stofnfundur Badmintonfélags Hafnarfjarðar var haldin þann 7. október 1959 og mættu 57 áhugasamir badmintoniðkendur á fundinn. Árni Þorvaldsson sem í framhaldinu var kosinn fyrsti formaður félagsins sagði við það tækifæri: „að nokkrir félagar hefðu hafið æfingar í Badminton fyrir um það bil ári, og þótt íþróttin svo ánægjuleg að sjálfsagt hefði þótt að gefa sem flestum tækifæri til að iðka hana, en með því að stofna sérstakt Badmintonfélag myndi á ýmsan hátt verða auðveldara að vinna að viðgangi þessarar íþróttar hér í bæ.“ Hermann Guðmundsson þáverandi framkvæmdastjóri ÍSÍ sem var á fundinum félagsmönnum til aðstoðar  gerði síðan fundarmönnum grein fyrir tillögu að lögum félagsins og sagði að þau væru að mestu leyti samin eftir lögum Tennis- og Badmintonfélags Reykjavíkur. Það er einnig skemmtileg að greina frá því að á stofnfundinum var ákveðið að árgjald félagsins yrði kr.100. Í fundargerð stofnfundar kemur fram að Hermann hafi jafnframt upplýst það á fundinum að badmintonfélag hefði verið stofnað í bænum 1934 en ekki orðið langlíft. Ekki eru miklar heimildir til um tilurð þess félags og því er stofndagur félagsins ávallt miðaður við 7.október 1959.

Meðal stofnenda félagsins voru m.a. Ebba Lárusdóttir og Þorgeir Ibsen en Ebba var á þessum árum landsþekkt badmintonkona, en hún varð 6 sinnum Íslandsmeistari í einliðaleik kvenna og 4 sinnum Íslandsmeistari í tvíliðaleik. Þorgeir Ibsen kunni líka ýmislegt fyrir sér í íþróttinni en hann hampaði Íslandsmeistaratitli í tvenndaleik 1951. Í fundargerð stofnfundar kemur fram að Þorgeir hefði í lok fundar rætt um badmintoníþróttina og kynnt hana fyrir fundarmönnum.

Fyrstu árin

Ekki gekk þrautalaust að halda úti félaginu fyrstu árin þar sem engin aðstaða var í bænum til að spila badminton ef frá er talinn íþróttasalurinn við St. Jósefsspítala eða bakvið Kató eins og húsið var kallað. Þar var ein völlur sem reyndar var ekki í fullri stærð og var endalínan uppá vegg. Stjórnin leigði einhverja tíma í Valsheimilinu 1960 og 1961 en ekki fara miklar sögur af annarri starfsemi félagsins ef frá er talið, að haldin var glæsileg árshátíð í febrúar 1962. Lítið starf var á næstu árum og lagðist skipulögð starfsemi félagsins af.

Árið 1971 ákvað Árni Þorvaldsson formaður félagsins að gera tilraun til að endurvekja félagið og boðaði til stjórnarfundar. Var stjórnarfundurinn haldinn í Willys jeppa yst á Álftanesinu og var eitt mál á dagskrá sem var endurreisn félagsins. Þeir þrír stjórnarmenn sem sátu fundinn þau Árni, Rakel Kristjánsdóttir og Böðvar Sigurðsson samþykktu að boða til félagsfundar 24. maí þar sem aðstæður væru að skapast til að iðka badminton í bænum. Félagsfundurinn var síðan haldin og mættu 28 áhugasamir félagar á fundinn. Samþykkt var að sækja um inngöngu í Íþróttabandalag Hafnarfjarðar og óska eftir tímum í nýja íþróttahúsinu. Það gekk eftir og voru fyrstu æfingar í Íþróttahúsinu við Strandgötu haustið 1972 en félagið fékk til úthlutunar tíma á mánudögum  og á fimmtudögum frá kl.17:15-18:55. Samþykkt var í stjórn félagsins að gjald fyrir hvern æfingatíma yrði kr.240.

Formenn félagsins

Formenn Badmintonfélags Hafnarfjarðar frá upphafi hafa aðeins verið sex og hefur núverandi formaður Hörður Þorsteinsson gengt starfinu lengst.

Fyrsti formaðurinn, Árni Þorvalsson, sat við stjórn 1959-1962 og svo aftur 1971-1972 þegar félagið var endurreist.

 

Á eftir honum tók Valgeir Kristjánsson við í einn vetur 1972-1973. Árni Sigvaldason var formaður félagsins 1973-1978 og síðan aftur 1983-1987. Árin þar á milli eða 1978-1983 var Gylfi Ingvarsson formaður.

 

Ein kona hefur verið formaður Badmintonfélags Hafnarfjarðar en það var Oddfríður Jónsdóttir árin 1987-1991.

 

Hörður Þorsteinsson tók við formanns embættinu af Oddfríði árið 1991 og hefur ekki fengið leyfi frá félögum sínum til að losna úr því síðan þá, enda kraftmikill og góður leiðtogi.

Strandgatan

Tilkoma Íþróttahússins við Strandgötu gjörbreytti aðstöðu í Hafnarfirði til badmintoniðkunar og hefur starfsemi félagsins verið óslitin frá þeim tíma er húsið var tekið í notkun. Ýmis vandamál komu þó upp í byrjun og má lesa í fundargerðum að samþykkt var á stjórnarfundi 1974 að rætt yrði við Ingva R. Baldvinsson íþróttafulltrúa um að eitthvað yrði sett fyrir glugganna þar sem erfitt væri að spila á móti gluggunum þegar sólin væri lágt á lofti. Félagið hefur haft aðstöðu í ýmsum íþróttahúsum bæjarins eftir því sem aðstaða til íþróttaiðkunar hefur breyst. Æfingar hafa verið í Íþróttahúsi Víðistaðaskóla og Íþróttahúsinu í Kaplakrika auk þess sem félagið æfði í Íþróttahúsinu við Strandgötu. Í dag er öll starfsemi félagsins rekin í Íþróttahúsinu við Strandgötu og er félagið með alla úthlutaða tíma til íþróttafélaga í húsinu. Um helgar er töluvert mikið af mótum í ýmsum íþróttagreinum.  

bottom of page