top of page
Search

Vel heppnað mót í Strandgötunni

Um helgina fór Meistararmót BH 2019 fram í Íþróttahúsinu við Strandgötu en keppt var í einliða-tvíliða- og tvenndarleik í meistara, A og B flokkum fullorðinna. Als tóku 93 keppendur frá sjö félögum þátt í mótinu: Aftureldingu, BH, Hamri, ÍA, KA, Samherja og TBR. BH-ingar voru fjömennastir með 43 keppendur og TBR-ingar næst fjölmennastir með 28 keppendur.


Í meistaraflokki náðu þrír keppendur að sigra tvöfalt. Erla Björg Hafsteinsdóttir, BH, sigraði í tvíliðaleik ásamt Elsu Nielsen, TBR, og í tvenndarleik ásamt Davíð Bjarna Björnssyni, TBR. Davíð Bjarni sigraði einnig í tvíliðaleik ásamt Eiði Ísak Broddasyni, TBR, en Eiður sigraði auk þess í einliðaleik karla. Í einliðaleik kvenna sigraði Sólrún Anna Ingvarsdóttir, BH.


Gústav Nilsson, TBR, sigraði tvöfalt í A flokki en hann var í fyrsta sæti í tvíliðaleik ásamt Stefáni Árna Arnarssyni, TBR, og í tvenndarleik ásamt Guðbjörgu Jónu Guðlaugsdóttur, TBR. BH-ingarnir Anna Lilja Sigurðardóttir og Elín Ósk Traustadóttir sigruðu í tvíliðaleik kvenna og Eyrún Björg Guðjónsdóttir í einliðaleik kvenna. Í einliðaleik karla sigraði Davíð Örn Harðarson, ÍA.


Guðmundur Adam Gígja, BH sigraði tvöfalt í B-flokki en hann varð í 1.sæti bæði í einliðaleik og tvíliðaleik ásamt Jóni Sverri Árnasyni, BH. Í einliðaleik kvenna sigraði Natalía Ósk Óðinsdóttir, BH, og tvíliðaleik kvenna Arndís Sævarsdóttir og Svanfríður Oddgeirsdóttir úr Aftureldingu. Í tvenndarleik voru sigurvegarnir Irena Rut Jónsdóttir og Arnór Tumi Finnsson úr ÍA.


BH-ingar unnu 21 verðlaun á mótinu og má finna lista yfir alla verðlaunahafa hér á tournamentsoftware.com.


Mikið var lagt í að hafa sem glæsilegasta umgjörð í Strandgötunni fyrir mótið. Keppnismottur félagins voru lagðar og dómarastólar og aðrar skreytingar settar fram. Þá voru vinir og velunnarar duglegir við að útvega verðlaun sem voru bæði gjafabréf og vörur frá eftirfarandi fyrirtækjum: RSL, Ormsson, Hótel Örk, Southcoast Adventure, Norðurljósahlaup Orkusölunnar, Primex, KFC, Íspan, Bílvík, World Class, Krydd veitingahús, Tæknivörur, Origo, Hótel Cabin og Hleðsla. Margir tugir BH-inga komu að mótahaldinu með ýmsum hætti og þökkum við öllum sem lögðu hönd á plóg kærlega fyrir hjálpina.


Myndir frá mótinu má finna hér á Facebook.Comments


bottom of page