top of page
Search

Breytt fyrirkomulag unglingamóta í vetur

Updated: Aug 28

Stjórn Badmintonsambands Íslands hefur samþykkt tillögu mótanefndar um breytt fyrirkomulag á unglingamótunum í vetur. Ekki verða nein sérstök A og B mót heldur verða öll mótin nema tvö spiluð í geturöðuðum riðlum líkt og Bikarmót BH sem mörg þekkja og hefur verið haldið árlega í maí um margra ára skeið.


Tilgangurinn með þessu er að allir keppendur fái sem jafnastan fjölda leikja í hverju móti og mótherja af svipuðum styrkleika. Með þessu fyrirkomulagi verður auðveldara fyrir leikmenn og aðstandendur að sjá hvaða tíma þau verða við keppni og vonandi styttir þetta einnig viðverutíma á keppnisstað miðað við það sem áður var. Þá er vonast er til að með þessu verði upplifun af íþróttinni okkar enn betri fyrir alla.


Ekki verður lengur notast við neinn styrkleikalista heldur mun röðun í riðla á hverju móti byggjast á fyrri úrslitum, mati þjálfara hvers félags og einnig ráðgjöf frá mótanefnd BSÍ. Þá er einnig breyting að á hverju móti er keppt að hámarki í tveimur greinum, t.d er í einu móti keppt í einliðaleik og tvíliðaleik en á næsta móti kannski tvíliðaleik og tvenndarleik. Er gengið út frá því að hver leikmaður fái a.m.k. þrjá til fimm leiki í einliðaleik og helst ekki færri en tvo til fjóra leiki í tvíliða- og tvenndarleik á hverju móti.


Tvö mót eru undanskilin þessu nýja fyrirkomulagi en það eru Íslandsmót unglinga og Unglingameistaramót TBR (alþjóðlegt mót). Þar verður einliðaleikur spilaður í riðlum og sigurvegarar fara síðan í útsláttarkeppni og hreinn útsláttur í tvíliða- og tvenndarleik.


Þetta nýja fyrirkomulag á við um U13-U19 flokkana. Eftir sem áður verður boðið uppá skemmtileg vinamót fyrir U9 og U11 flokkana þar sem ekki er keppt til úrslita heldur fá allir svipaðan fjölda leikja og jöfn verðlaun í mótslok líkt og stefna ÍSÍ segir til um.


Við hjá BH erum virkilega spennt fyrir þessu nýja fyrirkomulagi og hlökkum til að prófa það í vetur. Að tímabilinu loknu verður staðan endurmetin og ákveðið hvort framhald verður á næsta vetur.


Barna og unglingamót vetrarins 2024-2025 eru eftirfarandi og hvetjum við þau sem eru spennt fyrir keppni að setja þau í dagatalið hjá sér. Skráningarfrestur er yfirleitt viku fyrir mót og þarf að skrá til þátttöku samkvæmt leiðbeiningum í Sportabler.


  • 14.-15.sept - Reykjavíkurmót unglinga (TBR) - U13-U19 tvíliða- og tvenndarleikur

  • 5.-6.okt - Unglingamót TBS (Siglufirði) - U11-U19 einliða- og tvíliðaleikur

  • 12.-13.okt - SET-mót unglinga (KR) - U11-U19 einliðaleikur

  • 7.-8.des - Ljúflingamót TBR - U9-U11 einliðaleikur

  • 21. des - Jólamót unglinga (TBR) - U13-U19 einliðaleikur

  • 12.jan - Gríslingamót ÍA (Akranesi) - U9-U11 liðakeppni/einliðaleikur

  • 1.-2.feb - Unglingameistaramót TBR - U13-U19 alþjóðlegt mót í öllum greinum

  • 15.-16.feb - Unglingamót Aftureldingar - U9-U11 einliða og U13-U19 einliða- og tvíliða

  • 8.-9.mars - Landsbankamót ÍA (Akranesi) - U13-U19 einliða- og tvenndarleikur

  • 4.-6.apríl - Íslandsmót unglinga (TBR) - U11 einliða - U13-U19 allar greinar

  • 9.-11.maí - Hafnarfjarðarmótið - U13-U19 - tvíliða og tvenndarleikur

  • 10.-11.maí - Snillingamót BH - U9 og U11 einliðaleikur


Ofangreindur listi er birtur með fyrirvara um breytingar. Hér á badminton.is má finna mótaskrá yfir öll opin badmintonmót sem haldin eru á Íslandi, bæði barna, unglinga og fullorðinna.


Hlökkum til að hafa gaman saman á badmintonmótum vetrarins.



Frá keppni á unglingamót í Strandgötu í maí 2024
Frá keppni á unglingamót í Strandgötu í maí 2024

Comments


bottom of page