top of page
Search

Tíu BH-ingar kepptu á RSL Iceland International

Updated: Feb 6

Alþjóðlega badmintonmótið RSL Iceland International fór fram í TBR húsunum dagana 23.-26.janúar. 247 leikmenn frá 35 löndum skráðu sig til keppni og komust færri að en vildu. Tíu leikmenn frá BH komust inní mótið og stóðu sig vel.


Í tvenndarleik átti BH þrjú pör í mótinu. Guðmundur Adam Gígja og Rakel Rut Kristjánsdóttir sigruðu færeyskt par í undankeppninni 21-17 og 24-22. Í annarri umferð mættu þau einnig færeysku pari og töpuðu naumlega 22-20 í oddalotu. Róbert Ingi Huldarsson og Una Hrund Örvar mættu dönsku pari í undankeppni tvenndarleiksins og töpuðu 21-12 og 21-13. Stefán Logi Friðriksson og Hrafnhildur Edda Ingvarsdóttir komust beint inn í aðal keppninna vegna stiga sem þau voru með fyrir góðan árangur á EM unglinga. Þau biðu lægri hlut fyrir sterku svissnesku pari sem komst alla leið í undanúrslitin.


Gerda Voitechovskaja og Katla Sól Arnarsdóttir kepptu í einliðaleik kvenna. Katla mætti pólskum andstæðing í undankeppninni og tapaði 21-13 og 21-19 í flottum leik. Gerda mætti einnig pólskum leikmanni og sigraði í hörku leik 16-21, 22-20 og 21-19. Í næstu umferð mætti hún hollenskri stelpu og tapaði naumlega 22-20 í oddalotu.


Róbert Ingi Huldarsson keppti í einliðaleik karla. Hann sigraði örugglega í fyrstu umferð undankeppninnar leikmann frá Nýja Sjálandi 21-11 og 21-9 en tapaði í næstu umferð fyrir Dananum Mikkel Langemark 21-15 og 21-11. Langemark komst alla leið í undanúrslit þar sem hann tapaði naumlega fyrir samlanda sínum.


Í tvíliðaleik kvenna voru þrjú pör frá BH. Una Hrund Örvar og Gerda Voitechovskaja, Rakel Rut Kristjánsdóttir og Natalía Ósk Óðinsdóttir og Katla Sól Arnarsdóttir og Hrafnhildur Edda Ingvarsdóttir. Þær komust allar beint inní aðal keppnina og töpuðu þar í fyrstu umferð fyrir sterkum pörum. Una og Gerda voru næstar því að knýja fram sigur en þær komust í oddalotu. Andstæðingar Natalíu og Rakelar enduðu í 2.sæti á mótinu.


Í tvíliðaleik karla var eitt hafnfirskt par, þeir Guðmundur Adam Gígja og Sigurður Eðvarð Ólafsson. Guðmundur og Sigurður komust beint inní aðalkeppnina og sigruðu í fyrstu umferðinni Bjarna og Einar frá TBR. Í 16 liða úrslitum biðu þeir lægri hlut fyrir sterkum Belgum sem komust alla leið í undanúrslit og töpuðu þar naumlega fyrir sigurvegurum mótsins.


Smellið hér til að skoða nánari úrslit mótsins og hér til að skoða myndir á Facebook síðu BSÍ.


Íþróttastjóri BH, Kjartan Ágúst Valsson, var okkar fólki til halds og trausts á mótinu en hann er einnig aðstoðarlandsliðsþjálfari. Þá var einn dómari frá BH við störf, Sólveig Ósk Jónsdóttir, og 26 línuverðir. Þökkum þeim öllum fyrir frábært og mikilvægt framlag.


Óskum Badmintonsambandinu og TBR til hamingju með glæsilegt mót sem er svo sannarlega einn af hápunktum keppnistímabilsins og mikilvægur viðburður fyrir okkar sterkasta keppnisfólk.


Rakel Rut Kristjánsdóttir og Guðmundur Adam Gígja spiluðu tvo æsispennandi tvenndarleiki á mótinu.
Rakel Rut Kristjánsdóttir og Guðmundur Adam Gígja spiluðu tvo æsispennandi tvenndarleiki á mótinu.







Comentários


RioTinto_2017_Red_CMYK.jpg
lottó.jpg
rsl.JPG
Íþróttasamband Íslands
hfj.png
íbh.jpg
bottom of page