Föstudagskvöldið 7. mars hélt BH stelpukvöld í Strandgötu fyrir allar stelpur 16 ára og eldri sem einhverntíman hafa keppt í fullorðinsflokkum í badminton. 32 stelpur frá 5 félögum mættu og áttu skemmtilegt kvöld saman.
Frá klukkan 19-20:30 var spilaður tvíliðaleikur og sýndu stelpurnar frábær tilþrif þrátt fyrir að langt væri síðan margar höfðu spilað síðast. Byrjað var á því að spila upp á milli valla og svo var hægt að skora á í lokin.
Að lokinni sturtu í nýuppgerðum sturtuklefum karla (stelpusturturnar verða gerðar upp í sumar) var haldið til veislu í græna danssalnum. Þar var undirbúningsnefnd kvöldsins búin að dekka borð, skreyta og undirbúa glæsilegar veitingar fyrir hópinn. Einnig fengu þá allar afhentan veglegan gjafapoka með bol frá RSL á Íslandi, vikukorti í World Class og 20% afslætti í H-verslun.
Þegar búið var að gæða sér á ljúfengum veitingum og spjalla mikið og hlæja stýrði Erla Björg formaður BH tveimur skemmtilegum leikjum. Að lokum voru svo veitt útdráttarverðlaun. Þorbjörg og Katrín fengu gjafabréf fyrir tvo í Laugar Spa og Björ fékk 15.000 kr gjafabréf í H-verslun.
Þökkum RSL á Íslandi, World Class og H-verslun fyrir glæsilegar gjafir fyrir stelpurnar. Einnig þökkum við undirbúningsnefndinni fyrri frábær störf en húnvar skipuð þeim Erlu Björgu, Önnu Lilju, Sólrúnu Önnu, Rakel Rut, Unu Hrund og Natalíu Ósk.
Skorum á fleiri félög að skipuleggja viðburði sérstaklega fyrir stelpur. Aldrei að vita nema við endurtökum leikinni í Strandgötu síðar.




Comments