top of page
Search

Spaðafjör - Sumarnámskeið 2023

Updated: Jun 8, 2023

Badmintonfélag Hafnarfjarðar býður upp á badminton- og borðtennisnámskeið í sumar fyrir krakka á aldrinum 6-16 ára. Hentar fyrir allt frá byrjendum til keppniskrakka í badminton og byrjendur í borðtennis. Skipt verður í hópa eftir aldri og getu og því ættu allir að fá að njóta sín. Námskeiðin fara fram í Íþróttahúsinu við Strandgötu.


Í boði eru fimm viku löng námskeið þar sem þátttakendur mæta í 3-7 klst á dag. Allir fá ávexti í stuttu hléi fyrir og eftir hádegi og léttan hádegismat ef um heilsdags námskeið er að ræða. Á föstudögum eru grillaðar pylsur í hádeginu fyrir alla þátttakendur. Boðið er uppá fría gæslu frá 8:30-9:00 og 16:00-16:30.


Námskeiðin eru bæði fyrir þau sem vilja kynnast íþróttagreinum BH og þau sem eru þegar að æfa og vilja bæta sig. Hægt er að skrá sig á eins mörg námskeið og hverjum og einum hentar. Þátttakendur þurfa að mæta í íþróttafötum og gjarnan í innanhússkóm (þau sem eiga ekki innanhús skó ættu að vera á tánum til að renna ekki). Einnig mikilvægt að vera klædd eftir veðri því farið verður út í stuttar ferðir á hverjum degi. Hægt er að fá lánaða spaða og kúlur á staðnum.


Þjálfarar í sumar verða Una Hrund Örvar, badmintonþjálfari, Sólrún Anna Ingvarsdóttir, íþróttafræðinemi og badmintonþjálfari, og Anna Lilja Sigurðardóttir, íþróttafræðingur og badmintonþjálfari. Þá munu ungmenni sem æfa hjá félaginu á aldrinum 15-18 ára starfa við námskeiðin.


Skráning er hafin og fer fram í Sportabler. Hvetjum þau sem ætla að vera með í sumar að skrá sig sem fyrst til að missa ekki af plássi. Það var biðlisti í allar vikurnar hjá okkur í fyrra.


Námskeið í boði


Námskeiðin verða á eftirfarandi vikum:

  • Vika 1 – 12.-16.júní

  • Vika 2 – 3.júlí-7.júlí

  • Vika 3 - 10.júlí-14.júlí

  • Vika 4 – 8.ágúst-11.ágúst

  • Vika 5 – 14.ágúst-18.ágúst

Badmintonnámskeið fyrir byrjendur og styttra komna 6-14 ára verður fyrir hádegi kl.9-12 og fyrir vana keppniskrakka 11-16 ára eftir hádegi kl.13-16. Borðtennisnámskeið fyrir byrjendur verður eftir hádegi kl.13-16. Allir geta skráð sig á námskeið fyrir byrjendur og styttra komna. Námskeið fyrir vana keppniskrakka er fyrir þau sem hafa keppt reglulega og hafa áhuga og þolinmæði í að vinna í tæknilegum og taktískum atriðum í amk klukkutíma í einu.


Verð


Hálfur dagur - 7.500 kr vikan Heill dagur - 15.500 kr vikan


20% afsláttur ef keypt eru 2 eða fleiri námskeið.

Innifalið eru ávextir í hléi, grillaðar pylsur síðasta daginn og léttur hádegisverður (samlokur, skyr, súpa, grjóngrautur o.þ.h.) aðra daga fyrir þau sem eru skráð allan daginn. Einnig er boðið uppá fría gæslu kl.8:30-9 og 16-16:30 fyrir þau sem þurfa.


Nánari upplýsingar um námskeiðin eru veittar í gegnum netfangið bh@bhbadminton.is og í síma 8686361 (Anna Lilja).



bottom of page