Íþróttafólk BH 2025
- annaliljasig
- Dec 29, 2025
- 3 min read
Í lok hvers árs fer fram val á íþróttafólki Hafnarfjarðar. Í tengslum við þessa hátíð velur BH sitt íþróttafólk og tilnefnir sem íþróttafólk Hafnarfjarðar. Í ár voru það Gerda Voitechovskaja og Róbert Ingi Huldarsson sem voru valin badmintonfólk BH 2025 og Birgir Ívarsson og Sól Kristínardóttir Mixa borðtennisfólk BH 2025. Þau Gerda og Birgir voru svo valin af Hafnarfjarðarbæ í hóp þess íþróttafólks sem á möguleika á að vera valið Íþróttafólk Hafnarfjarðar. Íþróttahátíðin fer fram í Íþróttahúsinu við Strandgötu þriðjudaginn 30. desember kl.18:00 en þar fá einnig allir Íslandsmeistarar í hafnfirskum íþróttafélögum viðurkenningu.

Badmintonfólk BH 2025
Gerda Voitechovskaja er badmintonkona BH 2025. Gerda varð Íslandsmeistari í einliðaleik kvenna árið 2025, þriðja árið í röð. Einnig var Gerda í liði BH sem varð í 2.sæti á Íslandsmóti liða. Gerda sem er frá Litháen hefur búið hér á landi í um 6 ár og spilað fyrir BH öll árin. Auk þess að vinna Íslandsmótið náði Gerda góðum árangri á öðrum mótum á mótaröð BSÍ og er meðal annars í efsta sæti íslenska styrkleikalistans í tvíliðaleik kvenna. Gerda er virkilega góð fyrirmynd sem sýnir yngri leikmönnum að aukaæfingar og að leggja sig alltaf fram skilar árangri. Hún er dugleg að gefa af sér til yngri leikmanna og starfar sem þjálfari hjá BH meðfram badmintoniðkun sinni.
Róbert Ingi Huldarsson er badmintonkarl BH 2025. Róbert Ingi var í 2.sæti í einliðaleik karla á Íslandsmótinu 2025. Einnig var hann í liði BH sem varð í 2.sæti á Íslandsmóti liða. Róbert var valinn í íslenska landsliðið sem keppti í undankeppni EM liða í Tékklandi í desember. Hann keppti auk þess á alþjóðlegu móti í Þýskalandi, Íslandi og Noregi á árinu og stóð sig vel. Róbert er mikill baráttujaxl og góð fyrirmynd sem sýnir yngri leikmönnum að það er alltaf möguleiki á sigri ef maður gefst ekki upp. Hann vinnur frábært starf í félaginu við tæknimál og að bæta umgjörð badmintonmóta.
Borðtennisfólk BH 2025
Sól Kristínardóttir Mixa er borðtenniskona BH 2025. Sól var fyrirliði kvennaliðs BH sem varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn í sögunni og rauf 26 ára sigurgöngu Víkings og KR. Sól varð Íslandsmeistari í tvenndarleik ásamt Magnúsi Gauta Úlfarssyni í BH, og var það í annað sinn sem þau verða Íslandsmeistarar í tvenndarleik saman.
Birgir Ívarsson er borðtenniskarl BH 2025. Birgir var máttarstólpi í lið BH í efstu deild karla. Liðið varð deildarmeistari þar sem Birgir vann alla sína leiki á tímabilinu, 20 leiki af 20 spiluðum, sem verður jafnvel minnst í sögulegu samhengi. Birgir varð einnig íslandsmeistari í tvíliðaleik ásamt Magnúsi Gauta Úlfarssyni, BH, og var þetta þeirra fjórði titill saman.
Íslandsmeistarar BH 2025
Á árinu 2025 unnu 25 BH-ingar Íslandsmeistaratitil, 17 leikmenn í badminton og 8 í borðtennis. Allir Íslandsmeistarar fá viðurkenningu á íþróttahátíð Hafnarfjarðar í íþróttahúsinu við Strandgötu 30. desember kl.18:00.
Íslandsmeistarar í badminton:
Baldur Hrafn Gunnarsson, einliðaleik karla í 1.deild
Birnir Breki Kolbeinsson, tvenndarleik U15B
Barbara Jankowska, tvenndarleik U15B
Daníel Ísak Steinarsson, tvenndarleik í 1.deild
Erla Rós Heiðarsdóttir, tvíliðaleik kvenna í 2.deild og liðakeppni í 2. deild
Garðar Hrafn Benediktsson, liðakeppni í 2. deild
Gerda Voitechovskaja, einliðaleik kvenna í Úrvalsdeild
Hákon Kemp, tvíliðaleik karla í 2.deild
Helgi Valur Pálsson, einliðaleik karla í 2.deild og liðakeppni í 2. deild
Hrafn Örlygsson, liðakeppni í 2. deild
Hrafnhildur Edda Ingvarsdóttir, tvíliðaleik stúlkna U19A
Jón Sverrir Árnason, liðakeppni í 2. deild
Katla Sól Arnarsdóttir, tvíliða stúlkna U19A, tvenndarleik U17A og tvenndarleik í 1. deild
Katrín Líndal Stefánsdóttir, tvíliðaleik kvenna í 2.deild og liðakeppni í 2. deild
Kári Þórðarson, liðakeppni í 2. deild
Lena Rut Gígja, einliðaleik stúlkna U19B og tvíliðaleik kvenna í 1. deild
Lúðvík Kemp, tvíliðaleik karla í 2.deild
Íslandsmeistarar í borðtennis:
Agnes Brynjarsdóttir, liðakeppni kvenna
Birgir Ívarsson, tvíliðaleikur karla
Dawid May-Majewski, einliðaleikur 12-13 ára pilta og tvenndarkeppni 13 ára og yngri
Heiðar Leó Sölvason, einliðaleikur í 2. flokki karla og tvíliðaleikur 14-15 ára sveina
Kristján Ágúst Ármann, einliða- og tvíliðaleikur 14-15 ára sveina
Magnús Gauti Úlfarsson, tvíliðaleikur karla og tvenndarleikur í meistaraflokki
Sól Kristínardóttir Mixa, liðakeppni kvenna og tvenndarleikur í meistaraflokki
Vivian Huyhn, liðakeppni kvenna
Til hamingju með frábæran árangur á árinu 2025 kæra íþróttafólk.






















Comments