top of page
Search

Fjórir fengu gullmerki BH á afmælinu

Updated: Jan 13, 2020

Laugardaginn 26.október var haldið uppá 60 ár afmæli Badmintonfélags Hafnarfjarðar. Fyrri hluta dags var hátíð í Strandgötunni fyrir yngri kynslóðina og gesti og gangandi en um kvöldið var hátíðarkvöldverður fyrir eldri kynslóðina.


Á hátíðarkvöldverðinum voru veitt fjögur gullmerki en þau fengu eftirfarandi einstaklingar fyrir vel unnin störf í þágu félagsins: Anna Ósk Óskarsdóttir, þjálfari hjá BH til margra ára, Kristján Daníelsson, fyrrum varaformaður BH til margra ára og formaður Badmintonsambands Íslands, Sólveig Ósk Jónsdóttir, fyrsti alþjóða dómari BH og Ingimar Ingimarsson, sem verið hefur í forsvari borðtennisdeildar nánast frá stofnun hennar fyrir um 10 árum. Hörður Þorsteinsson, formaður BH, veitti þeim gullmerkin og þakkaði fyrir frábær störf. Vonandi fá félagsmenn að njóta krafta þessa öfluga fólks áfram sem lengst.

Frá vinstri: Kristján Daníelsson, Anna Ósk Óskarsdóttir, Sólveig Ósk Jónsdóttir, Ingimar Ingimarsson og Hörður Þorsteinsson

Formaður Tennis- og badmintonfélags Reykjavíkur færði BH glæsilega gjöf við sama tækifæri en það var mynd af heimsmeistaranum Erlu Björg Hafsteinsdóttur sem Elsa Nielsen, grafískur hönnuður og badmintonkona, gerði. Myndinni verður án efa fundinn góður staður í Strandgötunni.

Erla Björg, Hörður og Guðmundur

Badmintonsamband Íslands kom einnig færandi hendi í afmælið og veitti Erlu heimsmeistara blómvönd fyrir árangurinn í sumar. Þá sæmdi sambandið þær Önnu Lilju Sigurðardóttur og Irenu Ásdísi Óskarsdóttur gullmerki BSÍ en þær stöllur hafa verið í forsvari fyrir BH í 18 ár ásamt því að sitja í nefndum og stjórnum BSÍ um árbil og koma að þjálfun landsliða.

Frá vinstri: Kristján Daníelsson, formaður BSÍ, Anna Lilja Sigurðardóttir, Irena Ásdís Óskarsdóttir, Kjartan Ágúst Valsson, framkvæmdastjóri BSÍ.

Sebastian Vignisson fulltrúi ungra í stjórn BH stýrði dagskránni með glæsibrag sem var fjölbreytt og mikið hlegið á köflum. Þeir Garðar og Sebastian sýndu skemmtilegt myndband þar sem þeir gerðu létt grín af eldri leikmönnum og stjórnarfólki, Erla Björg var með spurningakeppni, Una Hrund og Sólrún með pakkaleik og BH bandið spilaði nokkur lög. Þá voru Jóhannes formaður borðtennisdeildar og Gylfi fyrrverandi formaður BH með stutt ávörp ásamt því að fulltrúar frá Badmintondeild ÍA færðu félaginu blómvönd. Kvöldið endaði svo á dansi þar sem DJ Valli Sport stjórnaði taktinum.

Sebastian skellti sér í nokkra gamla BH búninga um kvöldið og er hér í einum flottum frá Henson

Skemmtilegt kvöld sem verður eflaust lengi í minnum haft. Myndakassinn var vinsæll og er hægt að skoða myndir úr honum hér á Facebook síðu BH.

Comments


bottom of page