Deildakeppni í Strandgötu um helgina
- annaliljasig
- 5 days ago
- 1 min read
Updated: 3 days ago
Um helgina fer Deildakeppni BSÍ fram í Íþróttahúsinu við Strandgötu. Þetta er fyrri keppnishelgin af tveimur en sú síðar verður í TBR húsunum 6.-8.mars.
Deildakeppni BSÍ er Íslandsmót liða í badminton en þetta tímabilið verður aðeins keppt í 1. og 2. deild. Ákveðið var að fella niður keppni í úrvalsdeild en spila liðakeppni í blönduðum liðum í staðinn. Sjá nánar hér.
Fimm lið eru skráð til keppni í 1. deild, þar af þrjú frá BH, og sex í 2. deild, þar af tvö frá BH. Í báðum deildum eru spilaðar fimm umferðir og fara tvær þeirra fram um helgina í Strandgötu.
Fyrsta umferð verður spiluð á föstudag og hefst keppni klukkan 17:00. Reikna má með að keppni ljúki milli kl.20 og 21. Önnur umferð verður spiluð á laugardag klukkan 11:00 og klárast hún væntanlega um klukkan 15. Upplýsingar um liðin og leikina í keppninni má finna hér á tournamentsoftware.com.
Strandgatan er komin í sparifötin fyrir keppni helgarinnar en vaskur hópur BH-inga setti keppnismotturnar á gólfið í gær. Motturnar verða á gólfinu í 12 daga því Meistaramót BH og RSL fer fram helgina á eftir og fá því allir iðkendur að æfa á mottunum milli mótanna.
Óskum liðunum góðs gengis og góðrar skemmtunar um helgina. Hvetjum áhugasöm til að mæta á pallana og hvetja sitt fólk.





Comments