BH-ingar sigursælir um helgina
- annaliljasig
- 36 minutes ago
- 2 min read
Meistaramót BH og RSL fór fram í glæsilegri umgjörð í Íþróttahúsinu við Strandgötu helgina 21.-23.nóvember. Mótið er hluti af mótaröð Badmintonsambands Íslands og tók margt af besta badmintonfólki landsins þátt. BH-ingar voru sigursælir á mótinu og voru í 1. sæti í 11 af 14 keppnisgreinum.
Keppt var í þremur deildum á mótinu, Úrvals, 1. og 2.deild fullorðinna, og voru skráðir keppendur 99 talsins frá 6 félögum. Flestir þátttakendur komu frá TBR en þeir voru 38. Frá BH voru 36 skráðir, 16 frá Aftureldingu, 4 frá TBS og Hamar og 1 frá Tindastól. Mótið er næst fjölmennasta fullorðinsmót ársins á eftir Meistaramóti Íslands.
Gerda og Kristófer tvöfaldir sigurvegarar í úrvalsdeild
Í úrvalsdeild sigruðu bæði Gerda Voitechovskaja, BH, og Kristófer Darri Finnsson, TBR, tvöfalt. Þau sigruðu saman í tvenndarleik og síðan bæði í tvíliðaleik, Gerda með Örnu Karen úr TBR og Kristófer með Davíð Bjarna, TBR. Í einliðaleik kvenna sigraði Sólrún Anna Ingvarsdóttir, BH og í einliðaleik karla Einar Óli Guðbjörnsson, TBR.
BH-ingar bestir í 1. deild
BH-ingar voru mjög sigursælir í 1. deild og sigruðu allar greinar. Í einliðaleik karla sigraði Lúðvík Kemp en ekki var keppt í einliðaleik kvenna. Í tvíliðaleik karla sigruðu Helgi Valur Pálsson og Kári Þórðarson og í tvíliðaleik kvenna Lena Rut Gígja og Emma Katrín Helgadóttir frá Tindastól. Í tvenndarleik voru sigurvegarar Stefán Logi Friðriksson og Hrafnhildur Edda Ingvarsdóttir.
Angela tvöfaldur sigurvegari í 2. deild
Í 2.deild sigraði Angela Líf Kuforiji frá BH tvöfallt, bæði einliðaleik og tvíliðaleik með Snædísi Sól Ingimundardóttur, BH. Einliðaleik karla sigraði Emil Víkingur Friðriksson frá TBR en BH-ingarnir Birkir Darri Nökkvason og Þorleifur Fúsi Guðmundsson sigruðu í tvíliðaleik karla. Í tvenndarleiknum voru sigurvegarar Erik Valur Kjartansson og Sigrún María Valsdóttir frá BH.
Verðlaunahafar í öllum flokkum fengu verðlaun frá RSL á Íslandi en einnig gáfu Dekra heildverslun, Ormsson, Domino´s PIzza, Hótel Örk, Elding, Eldhestar, Hleðsla og Tæknivörur glæsileg verðlaun.
Smelltu hér til að skoða nánari úrslit.
Myndir
Rúmlega 1000 myndir frá keppni og verðlaunaafhendingu mótsins má finna hér á Facebook. Hvetjum félög og leikmenn til að deila myndum á samfélagsmiðlum. Ljósmyndari BH, Kristján Pétur Hilmarsson, sá um að taka myndir af öllum keppendum og þökkum við honum kærlega fyrir góð störf.
Þakkir
Mótið var spilað á keppnismottum BH í beinni útsendingu á Youtube. BH-ingurinn Róbert Ingi Huldarsson hafði veg og vanda af útsendingunni og úrslitaþjónustunni tengdri henni sem hann forritaði sjálfur og er á heimsmælikvarða. Virkilega vel gert hjá Róberti. Um 40 BH-ingar aðstoðuðu við undirbúning, framkvæmd og frágang að móti loknu en án þessa öfluga hóps væri ekki hægt að halda stórmót eins og þetta.
Þökkum leikmönnum, þjálfurum, áhorfendum, starfsfólki, samstarfsaðilum, dómurum, teljurum og öðrum sjálfboðaliðum kærlega fyrir frábæra helgi.





Comments