top of page
Search

BH-ingar kepptu í Króatíu

Fjórir BH-ingar voru á faraldsfæti og kepptu á badmintonmótum í Dubrovnik í Króatíu í júní.


Gabríel Ingi Helgason keppti á alþjóðlega U19 badmintonmótinu Croatia Valamar Junior Open á þjóðhátíðardaginn 17.júní. Hann sat hjá í fyrstu umferð en mætti í annarri umferð feikna sterkum ungverskum leikmanni sem var raðaður númer 5 í mótið. Gabríel tapaði leiknum 21-10 og 21-9 en náði ágætis spili inn á milli og dýrmætri reynslu í bankann. Sjá úrslit mótsins hér á tournamentsoftware.com.


Þann 20.júní hófst svo alþjóðlegt fullorðinsmót á sama stað, Croatia Open 2022. Þar keppti Gabríel Ingi einnig og í hópinn bættust þau Róbert Ingi Huldarsson, Sólrún Anna Ingvarsdóttir og Una Hrund Örvar. Níu TBR-ingar tóku einnig þátt í mótinu þar á meðal sjúkraþjálfari BH, Róbert Þór Henn. Okkar fólk spilaði allar greinar og fékk góða leiki. Þrír Íslendingar náðu að vinna í einliðaleik. Róbert Ingi, BH, sigraði andstæðing frá Luxemburg og Daníel Jóhannesson, TBR, heimamann frá Króatíu, báðir í spennandi þriggja lotu leikjum. Róbert Þór náði bestum árangri Íslendinganna en hann sigraði þrjá andstæðinga í einliðaleik. Hann tapaði fjórða leiknum gegn sigurvegar mótsins Justin Hoh frá Malasíu. Úrslit mótsins má finna hér á tournamentsoftware.com.


Það er mikill ferðahugur í íslensku badmintonfólki þessa dagana og verður spennandi að fylgjast með þeim reyna fyrir sér á erlendri grundu næstu vikur og mánuði.



BH-ingar í Króatíu. Una Hrund, Róbert Ingi, Gabríel Ingi og Sólrún Anna.
BH-ingar í Króatíu. Una Hrund, Róbert Ingi, Gabríel Ingi og Sólrún Anna.



bottom of page