top of page
Search

Erla og Drífa Heimsmeistarar

Updated: Aug 12, 2019

BH-ingurinn Erla Björg Hafsteinsdóttir varð í dag Heimsmeistari í tvíliðaleik kvenna í flokki 40 ára og eldri ásamt Drífu Harðardóttur úr Badmintonfélagi Akraness. Þetta er fyrsti Heimsmeistaratitill BH (og ÍA örugglega líka) en Erla vann einnig fyrsta Íslandsmeistaratitil BH í badminton fyrir nokkrum árum. Flottur árangur hjá þessum frábæru íþróttakonum.


Þær Erla og Drífa mættu í fyrstu umferð mjög sterku japönsku pari sem þær unnu í oddi 24-22. Í næstu þremur umferðum unnu þær mjög sannfærandi keppendur frá Þýskalandi, Póllandi og Sri Lanka. Í úrslitaleiknum mættu þær Helene Abusdal frá Noregi og Katja Wengberg frá Svíþjóð. Fyrsta lotan var æsispennandi og endaði með 24-22 sigri Erlu og Drífu. Í annarri lotu voru íslensku stelpurnar með yfirhöndina allan tíman og sigruðu örugglega 21-10.


Erla spilaði einnig tvenndarleik á mótinu með Skotanum Mark Mackay en þau komust í átta liða úrslit þar sem þau töpuðu naumlega fyrir sigurvegurum mótsins.


Við BH-ingar erum einstaklega stolt af Erlu. Hún er mikil fyrirmynd í okkar félagi, æfir sérstaklega vel, leggur sig alla fram við æfingar og keppni og gefur mikið af sér til æfingafélaga sinna. Þá er hún einnig í stjórn BH og vinnur mörg sjálfboðaliðastörf fyrir félagið.


Til hamingju elsku Erla okkar og takk fyrir að vera BH-ingur.Drífa Harðardóttir (t.v.) og Erla Björg Hafsteinsdóttir (t.h.)

Comments


bottom of page