Badmintonfélag Hafnarfjarðar og hafnfirska lyfjafyrirtækið Williams & Halls gerðu um helgina með sér samstarfssamning til tveggja ára.
Samstarfið varðar stuðning við barna- og unglingastarf BH. Um er að ræða samstarf á breiðum grundvelli þar sem áherslan er lögð á að stuðningur Williams & Halls verði nýttur til að skapa börnum og unglingum sem greiðasta aðgang að æfingum og þátttöku í keppni á vegum félagsins.
Skrifað var undir samninginn í Íþróttahúsinu við Strandgötu á laugardaginn. Það voru þau Jón Óskar Hinriksson, framkvæmdastjóri, og Magdalena Margrét Jóhannsdóttir, sölu- og markaðsstjóri, sem skrifuðu undir samninginn fyrir hönd Williams & Halls og Anna Lilja Sigurðardóttir, ritari stjórnar BH, fyrir hönd Badmintonfélags Hafnarfjarðar.
"Við hjá Badmintonfélagi Hafnarfjarðar erum einstaklega stolt af því að fá öflugt fyrirtæki eins og Williams & Halls í lið með okkur. Með stuðningi þeirra voru keyptir nýir bolir fyrir alla iðkendur 18 ára og yngri en einnig verður stuðningurinn nýttur til að tryggja að öll börn sem vilja geti tekið þátt í æfingum og keppni óháð efnahag." sagði Anna Lilja við undirritun samningsins.
Hluti af börnum og unglingum sem æfa hjá félaginu voru viðstödd undirritunina í nýju bolunum en á sama tíma fór Snillingamót BH fram í Strandgötunni. Mótið er fyrir allra yngstu badmintoniðkendurna sem margir voru að stíga sín fyrstu skref í keppni.
Comments