top of page
Search

Una, Róbert og Magnús tilnefnd sem íþróttafólk Hafnarfjarðar

Badmintonfólkið Una Hrund Örvar og Róbert Ingi Huldarsson og borðtennismaðurinn Magnús Gauti Úlfarsson úr Badmintonfélagi Hafnarfjarðar voru á meðal þeirra sem tilnefnd voru sem íþróttafólk Hafnarfjarðar 2021.


Badmintonmaðurinn Róbert Ingi Huldarsson úr Badmintonfélagi Hafnarfjarðar vann til silfurverðlauna í einliðaleik karla á Meistaramóti Íslands sem fram fór í maí. Var þetta annað árið í röð sem hann komst í úrslit í einliðaleik karla í meistaraflokki á Íslandsmótinu, fyrstur BH-inga, og hefur heldur betur stimplað sig inn sem einn af allra bestu badmintonspilurum landsins. Róbert Ingi er í 2.sæti á styrkleikalista BSÍ í einliðaleik og í A-landsliðshóp Badmintonsambands Íslands. Róbert er mikill baráttu jaxl og góð fyrirmynd sem sýnir yngri leikmönnum að það er alltaf möguleiki á sigri ef maður gefst ekki upp. Hann vinnur frábært starf í félaginu við tæknimál og að bæta umgjörð badmintonmóta.


Badmintonkonan Una Hrund Örvar úr Badmintonfélagi Hafnarfjarðar er ein allra besta tvenndarleikskona landsins en hún er í 2.sæti á styrkleikalista BSÍ í tvenndarleik. Hún sigraði á Óskarsmóti KR og var í öðru sæti á TBR Opið og Meistaramóti BH í tvenndarleik á árinu með sínum meðspilurum. Þá var Una Hrund einnig í Afrekshópi og A-landsliðshópi Badmintonsambandins. Una Hrund er mikil keppnismanneskja og leggur mikið á sig til að vera á meðal bestu tvíliða- og tvenndarleiksspilara landsins. Hún er dugleg að gefa af sér til yngri leikmanna og hefur verið þjálfari hjá félaginu um árabil.


Borðtennismaðurinn Magnús Gauti Úlfarsson varð tvöfaldur Íslandsmeistari í meistaraflokki í borðtennis á árinu. Hann sigraði bæði í einliðaleik og tvíliðaleik með Birgi Ívarssyni. Magnús Gauti var einnig í liði BH sem varð Deildarmeistari í Keldudeildinni 2021 og er í landsliði Íslands í borðtennis. Magnús Gauti er frábær fyrirmynd yngri leikmanna.


Badmintonfélag Hafnarfjarðar óskar þessu glæsilega íþróttafólki til hamingju með tilnefninguna.


Glæsilegir fulltrúar BH í kjörinu um Íþróttafólk Hafnarfjarðar 2021. Frá vinstri Una Hrund Örvar, Róbert Ingi Huldarsson, Magnús Gauti Úlfarsson.


Yorumlar


bottom of page