Deildakeppni BSÍ, Íslandsmót fullorðinsliða í badminton, fór fram í TBR húsunum um helgina. Fimm lið frá BH tóku þátt, eitt í meistaradeild, eitt í A-deild og þrjú í B-deild. Hart var barist í öllum deildum og stóð okkar fólk sig frábærlega og komu með tvo Íslandsmeistaratitla heim í Fjörðinn.
Í B deild voru það BH - Hrafnarnir sem urðu Íslandsmeistarar. Spiluðu þau gegn Aftureldingu í úrslitaleiknum og unnu þann leik 5 - 3. Sigurliðið skipuðu þau Anna Ósk Óskarsdóttir, Hulda Jónasdóttir, Rakel Rut Kristjánsdóttir, Gabríel Ingi Helgason, Hilmar Ársæll Steinþórsson, Kristian Óskar Sveinbjörnsson, Kristján Ásgeir Svavarsson og Sebastían Vignisson. BH Naglar urðu í 4.sæti í B-deildinni og BH Bleikir í 5.sæti.
Í A deild var spilað í fjögurra liða riðli þar sem öll lið spiluðu gegn hvert öðru. Að keppni lokinni voru þrú lið jöfn að stigum og þurfti því að fara í talningu á fjölda sigraðra leikja innan hverrar viðureignar til að skera úr um úrslit. Eftir talningu kom í ljós að BH sigraði og hampaði því Íslandsmeistaratitlinum í A-deild. Í liði BH voru Anna Lilja Sigurðardóttir, Elín Ósk Traustadóttir,
Irena Ásdís Óskarsdóttir, Borgar Ævar Axelsson, Geir Svanbjörnsson, Kristinn Ingi Guðjónsson og
Steinþór Emil Svavarsson.
Comments