Skráning er hafin í þrjú síðustu mót vetrarins á mótaskrá Badmintonsambands Íslands, eitt mót fyrir fullorðna og tvö mót fyrir börn og unglinga. Hvetjum keppnisglaða BH-inga til að skrá sig. Upplýsingar um mótin má finna hér fyrir neðan en neðst í fréttinni eru almennar upplýsingar um badmintonmót.
Vormót trimmara - 5.maí 2024
Staðsetning: TBR húsin við Gnoðarvog
Flokkar: Þátttaka er öllum badmintontrimmurum heimil en þeir eru skilgreindir sem 18 ára og eldri sem aldrei hafa verið í meistaraflokki/úrvalsdeild og keppa ekki reglulega í 1.deild.
Keppnisfyrirkomulag: Keppt verður í einliða-, tvíliða- og tvenndarleik. Keppni hefst kl. 10.00 í einliðaleik en um kl. 12.00 má ætla að keppni í tvíliðaleik geti hafist, og svo tvenndarleikurinn i framhaldi. Þeir sem tapa fyrsta leik fara í aukaflokk ef 5 lið/einstaklingar eða fleiri eru í viðkomandi flokki. Annars er um riðlakeppni að ræða.
Mótsgjöld: 4.000 kr fyrir einliðaleik og 3.000 kr á mann í hverja grein fyrir tvíliða- og tvenndarleik.
Skráning: Fer fram á þessu eyðublaði og lýkur föstudaginn 26.apríl.
Athugið að með því að senda inn skráningu í mótið samþykkir keppandi og/eða hans aðstandandi að nafn hans og kennitala birtist á mótavef Badmintonsambandsins, tournamentsoftware.com.
Bikarmót BH - 10.-12.maí 2024
Staðsetning: Íþróttahúsið við Strandgötu
Flokkar: U13-U19 - öll getustig
Keppnisfyrirkomulag: Spilaður verður einliðaleikur í getuskiptum riðlum. Leitast verður við að hafa 4-5 í hverjum riðli en það getur þó verið breytilegt eftir fjölda skráðra þátttakenda. Mótsstjórn áskilur sér rétt til að sameina aldursflokka ef þess gerist þörf. Sigurvegari í hverjum riðli fær bikar í verðlaun.
Það kemur í ljós fljótlega eftir að skráning liggur fyrir hvaða flokkur spilar hvaða dag og á hvaða tíma. Öruggt er að hver flokkur spilar aðeins einn dag eða hluta úr degi og því er ekki öll helgin undir.
Mótsgjöld: 3.000 kr á mann, greitt í Sportabler.
Skráning: Skráning BH-inga fer fram í Sportabler og lýkur fimmtudaginn 2.maí. Athugið að með því að senda inn skráningu í mótið samþykkir keppandi og/eða hans aðstandandi að nafn hans og kennitala birtist á mótavef Badmintonsambandsins, tournamentsoftware.com.
Snillingamót BH - 11.-12.maí 2024
Staðsetning: Íþróttahúsið við Strandgötu
Flokkar: U9 og U11
Keppnisfyrirkomulag: Mótið er með svolítið öðru sniði en þekkist í eldri flokkum því spilað verður á minni völlum til að fá meira spil og vonandi betri upplifun fyrir krakkana. U11
spila á hefðbundnum hálfum velli. U9 spila á hálfum velli og notast við næst öftustu endalínu. Hver leikur er ein lota í 21 stig og fær hver leikmaður a.m.k. 4 leiki. Allir þátttakendur fá glaðning í mótslok.
U9 (fædd 2015 og síðar) Spila laugardaginn 11.maí kl.9:00-11:00, mæting 8:45
U11 (fædd 2013 og 2014) Spila sunnudaginn 12.maí kl.9:00-11:00, mæting 8:45
Mótsgjöld: 2.000 kr á mann, greitt í Sportabler.
Skráning: Skráning BH-inga fer fram í Sportabler og lýkur mánudaginn 6.maí.
Almennt um badmintonmót
Yfirlit yfir öll mót vetrarins má finna á badminton.is undir mótamál og mótaskrá.
BH-ingar sem vilja taka þátt í mótum þurfa að skrá sig á þar til gerð eyðublöð eða með tölvupósti til bh@bhbadminton.is innan skráningarfrestsins sem gefinn er upp. Mótsgjöld þarf að greiða við skráningu í Sportabler eða inná reikning BH eigi síðar en daginn eftir mót: 0545-26-5010, kt. 501001-3090.
Allir sem skrá sig á mót þurfa að kunna reglurnar nokkuð vel og treysta sér til að vera teljarar á leikjum hjá öðrum keppendum. Á lang flestum barn og unglingamótum þurfa þátttakendur að setjast upp í dómarastól að sínum leik loknum og telja stig í næsta leik á eftir.
B mót unglinga henta best fyrir krakka sem eru að stíga sín fyrstu skref í íþróttinni og styttra komna, þau sem hafa unnið til verðlauna á opnum mótum mega ekki keppa þar. A mót unglinga eru erfið fyrir þau sem ekki hafa keppt áður og er ekki mælt með því að byrja á slíku móti.
Fullorðinsmót henta aðeins fyrir mjög vant keppnisfólk 15 ára og eldri. Fullorðnir ættu að byrja á að prófa að keppa í svokölluðum trimmótum en gætu svo í kjölfarið keppt í 2.deild fullorðinna.
Um að gera að leita ráða hjá þjálfurum við val á mótum.
Aldursflokkaskiptingar barna og unglinga veturinn 2023-2024 U9 - fædd 2015 og síðar U11 - fædd 2014 og 2013 U13 - fædd 2012 og 2011 U15 - fædd 2010 og 2009 U17 - fædd 2008 og 2007 U19 - fædd 2006 og 2005
Comments