BH/ÍA eru Íslandsmeistarar liða í efstu deild í badminton 2023-2024. Í öðru sæti var lið BH. Þetta eru söguleg úrslit í íslenskri badmintonsögu þar sem TBR hefur sigrað keppnina síðan elstu menn muna.
BH/ÍA og BH mættust tvisvar og sigraði BH/ÍA í bæði skiptin 5-0. Leikirnir voru engu að síður skemmtilegir og sýndu leikmenn glæsileg tilþrif. Spilað var á keppnismottum BH í Íþróttahúsinu við Strandgötu í glæsilegri umgjörð. Þó nokkuð margir áhorfendur mættu á leikina en boðið var uppá vöfflur til sölu í tengslum við fyrri leikinn og pizzur á seinni leiknum. Dómarar BH þær Snjólaug Birgirsdóttir og Sólveig Ósk Jónsdóttir dæmdu leikina af röggsemi.
Í sigurliðinu BH/ÍA voru þau Róbert Ingi Huldarsson, Gerda Voitechovskaja og Gabríel Ingi Helgason frá BH og Drífa Harðardóttir frá ÍA. Gerda er núverandi Íslandsmeistari í einliðaleik kvenna og sigraði þrefalt á Meistaramóti BH og RSL í nóvember. Gabríel Ingi er margfaldur Íslandsmeistari unglinga í badminton og í 5.sæti á styrkleikalista BSÍ í einliðaleik. Róbert Ingi hefur verið á meðal fremstu einliðaleiksspilara landsins undanfarin ár og tvisvar unnið til silfurverðlauna á Meistaramóti Íslands. Skagamaðurinn Drífa er margfaldur Íslandsmeistari í tvíliða- og tvenndarleik og auk þess heimsmeistari öldunga 45+ í báðum greinum.
Í silfurliði BH voru þau Brynjar Már Ellertsson, Davíð Phuong Xuan Nguyen, Natalía Ósk Óðinsdóttir, Stefán Logi Friðriksson, Sólrún Anna Ingvarsdóttir og Una Hrund Örvar. Þeir Brynjar og Davíð eru sterkir tvíliða og tvenndarleiksspilarar sem eiga bæði unglingameistaratitla og verðlaun í fullorðinsflokkum á ferilskránni. Natalía Ósk er á meðal bestu tvíliðaleiksspilara landsins en hún er í 4.sæti á styrkleikalista BSÍ í greininni. Stefán Logi er ungur og efnilegur leikmaður sem nýlega varð þrefaldur Íslandsmeistari í U17 og kemur inn sem varamaður í liðið. Sólrún Anna er öflugur einliðaleiksspilari sem náði m.a. frábærum árangri á RSL Iceland International mótinu 2023. Una Hrund er á meðal bestu tvíliða og tvenndarleiksspilara landsins en hún er efst á styrkleikalista BSÍ í tvíliðaleik og í 2.sæti í tvenndarleik.
Nánari úrslit má finna hér á tournamentsoftware.com.
Frétt um úrslit í 1. og 2. deild má finna hér.
Comments