Fimmtudaginn 26.september býður Badmintonfélag Hafnarfjarðar iðkendum sínum í bæði badminton og borðtennis uppá fræðslu um næringu. Elísa Viðarsdóttir næringarfræðingur og íþróttakona ætlar að fara yfir það með okkur hvað er best fyrir íþróttafólk að borða. Hún mun gefa okkur hugmyndir að góðu nesti í kringum æfingar og keppni og góðum venjum og skipulagi í þéttri dagskrá sem flestir okkar iðkendur hafa í kringum skóla, vinnu og æfinga.
Elísa hefur mikla reynslu á sviði næringar. Hún hefur haldið fjölda fyrirlestra fyrir eintaklinga, fyrirtæki og íþróttafélög ásamt því að gefa út bókina Næringin skapar meistarann árið 2021. Elísa brennur fyrir að hjálpa fólki að ná tökum á næringunni með heilbrigðum hætti og við hlökkum til að fá hana í heimsókn.
Fræðslan fer fram í borðtennis og veislusal félagsins á annarri hæð í Íþróttahúsinu við Strandgötu. Skipt verður í tvo hópa eftir aldri og eru foreldrar sérstaklega hvattir til að mæta með börnum sínum:
kl. 19:15-20:00 - Grunnskólanemar 4.-10. bekkur
kl. 20:00-21:00 - Framhaldsskólanemar og eldri
Þetta kvöld verður skólaball í Strandgötu og því falla allar badmintonæfingar niður og borðtennisæfingar enda kl.18:45.
Fullorðinshópar sem missa sínar æfingar eru búnir að fá skilaboð í Sportabler eða tölvupósti með boði um aukatíma. Fimmtudagsspilurum býðst aukatími á föstudag kl.17:30-18:30 og/eða mánudag kl.18:30-20:00. Almenningshópur fær aukatíma á föstudag 27. sept kl.18:30-19:30 eða mánudag 30. sept kl.17:30-18:30.
Comments