Framtíðin er sannarlega björt hjá badmintonhreyfingunni á Íslandi ef skoðaðar eru skráningartölur og glæsileg tilþrif hjá ungu kynslóðinni sem keppti í Strandgötu um helgina. Um helgina voru 222 börn og ungmenni skráð í Bikarmóti BH og Snillingamót BH í ár. Á þessum árlegu mótum félagsins voru 170 skráð í fyrra og fjölgunin því 28% á milli ára. Þátttakendur sýndu glæsileg tilþrif og spiluðu fjölmarga jafna og flotta leiki.
Kristján Pétur Hilmarsson tók skemmtilegar myndir af keppendum, áhorfendum og starfsfólki um helgina. Á Facebook síðu BH er hægt að skoða myndirnar sem eru hátt í 2000 talsins í fimm albúmum. Vonum að það hafi náðst að smella góðri mynd af öllum þátttakendum.
Mest aukning í skráningum um helgina var í Snillingamót BH sem er fyrir yngstu aldurshópana. 76% aukning í U9 flokkinn og 30% aukning í U11 flokkinn. 8 forföll voru í U11 en aðeins 1 í U9. Á þessu móti er keppt í einliðaleik á hálfum velli og var þátttakendum skipt niður á velli eftir áætlaðri getu. Einn þjálfari eða eldri leikmaður var á hverjum velli og sá um að skipta inná og færa leikmenn yfir á aðra velli ef þurfti til að tryggja jafnari leiki. Úrslit voru skráð til að hafa yfirsýn yfir það hvort allir væru að fá leiki við hæfi en voru ekki birt sérstaklega. Allir keppendur spiluðu 4-6 lotur og fengu svo litríkan bolta til að leika með úti í sumar í mótslok. Það var ekki annað að sjá en að allir krakkarnir færu glaðir heim.
Bikarmót BH er fyrir U13-U19 aldurshópana. Þar er keppt í einliðaleik á heilum velli. Skráðir þátttakendur voru 123 talsins, 15% fleiri en í fyrra. Keppendum var raðað í 26 geturaðaða riðla og voru 4-5 í hverjum riðli. Forföll voru 7 og þar af 3 í U13 hnokkar þar sem þurfti því að fækka um einn riðil. Mjög mikið var um upphækkanir og oddalotur á mótinu og var vegna þess nokkur seinkun á dagskrá á sunnudeginum. Að öðru leiti gekk mótið vel og mikil ánægja með fyrirkomulagið hjá keppendum og aðstandendum. Allir þátttakendur fengu gjafabréf að keppni lokinni hjá Joe & the Juice og sigurvegarinn í hverjum riðli lítinn bikar. Úrslit allra riðla má finna hér á tournamentsoftware.com.
Þökkum eldri leikmönnum, þjálfurum og stjórnarfólki fyrir frábær störf í tengslum við mótið um helgina. Það þarf stóran og öflugan hóp teljara, vallarstjóra og mótsstjóra til að allt gangi upp og það var svo sannarlega þannig að þessu sinni þökk sé okkar öfluga hópi. Þökkum einnig þátttakendum fyrir frábært spil og drengilega framkomu og aðstandendum og þjálfurum fyrir góðan stuðning úr stúkunni. Hlökkum til næsta móts.
Comments