top of page
Search

Gerda tvöfaldur Íslandsmeistari og BH með flesta titla

Updated: May 9

Stórglæsilegur árangur náðist hjá BH á Meistaramóti Íslands í badminton sem fram fór í Íþróttahúsinu við Strandgötu 25.-27.apríl. Gerda Voitechovskaja varð tvöfaldur Íslandsmeistari í úrvalsdeild en átta aðrir titlar komu í hlut BH-inga á mótinu sem gerir BH að sigursælasta félagi mótsins.


Gerda varði titil sinn í einliðaleik kvenna frá því í fyrra en þá sigraði hún í fyrsta sinn. Í úrslitum mætti hún Sigríði Árnadóttur, TBR, og vann 21-17 og 21-9. Í tvíliðaleik kvenna sigraði Gerda ásamt Drífu Harðardóttur úr ÍA. Úrslitaleikinn spiluðu þær við Örnu Karen Jóhannsdóttur og Sigríði Árnadóttur úr TBR. Leikurinn var hnífjafn og æsispennandi en endaði með sigri Gerdu og Drífu 15-20, 22-20 og 21-19.


Í 1.deild sigraði Katla Sól Arnarsdóttir tvöfalt, bæði í einliðaleik kvenna og svo í tvíliðaleik kvenna með Hrafnhildi Eddu Ingvarsdóttur. Steinþór Emil Svavarsson sigraði í einliðaleik karla og Kristján Daníelsson í tvíliðaleik karla ásamt Jóni Sigurðssyni úr TBR. Til silfurverðlauna vann Halla Stella Sveinbjörnsdóttir í einliðaleik kvenna, Jón Víðir Heiðarsson í einliðaleik karla og þau Hólmsteinn Þór Valdimarsson og Natalía Ósk Óðinsdóttir í tvenndarleik.


Kristján Ásgeir Svavarsson sigraði í einliðaleik karla og þeir Jón Víðir Heiðarsson og Jón Sverrir Árnason í tvíliðaleik karla í 2.deild.


Nánari úrslit má finna hér á tournamentsoftware.com.


BSÍ og BH héldu Meistaramót Íslands 2024 í sameiningu og gekk það mjög vel. BH sá um frábæra umgjörð í Strandgötu og BSÍ um fumlausa framkvæmd mótsins. Mjög góð mæting var á pallana og fólk duglegt að hvetja sitt fólk til dáða. Ungir badmintonspilarar úr BH voru með veitingasölu á mótinu sem vel var látið af enda mikið af góðu og girnilegu heimagerðu góðgæti í boði.


Allir leikir voru í beinni útsendingu á Youtube rás Badmintonsambands Íslands. Mælum með að kíkja á leikina og þá sérstaklega úrslitaleikinn í tvíliðaleik kvenna sem var einstaklega skemmtilegur (sjá hér).


Þökkum öllum sem komu að undirbúningi, framkvæmd og frágangi mótsins kærlega fyrir og óskum keppendum til hamingju með árangurinn.


Myndir frá mótinu má finna hér á Facebook og fleiri eru væntanlegar fljótlega.


Íslandsmeistarar BH í fullorðinsflokkum 2024. Frá vinstri Jón Sverirr, Jón Víðir, Hrafnhildur Edda, Gerda, Katla Sól, Steinþór Emil og Kristján Ásgeir. Á myndina vantar Kristján Daníelsson.
Íslandsmeistarar BH í fullorðinsflokkum 2024. Frá vinstri Jón Sverirr, Jón Víðir, Hrafnhildur Edda, Gerda, Katla Sól, Steinþór Emil og Kristján Ásgeir. Á myndina vantar Kristján Daníelsson.

Yorumlar


bottom of page