top of page
Search

Gerda þrefaldur sigurvegari á Meistaramóti BH og RSL

Updated: Nov 29, 2023

Meistaramót BH og RSL fór fram í Strandgötunni um helgina. Mótið er hluti af mótaröð Badmintonsambands Íslands og tók flest af besta badmintonfólki landsins þátt. BH-ingurinn Gerda Voitechovskaja var sigursælasti keppandi mótsins en hún sigraði í einliða-, tvíliða-, og tvenndarleik í Úrvalsdeild. BH-ingar náðu einstaklega góðum árangri á mótinu og sigruðu í 11 af 15 greinum.


Keppt var í þremur deildum á mótinu, Úrvals, 1. og 2.deild fullorðinna, og voru skráðir keppendur 99 talsins. Flestir þátttakendur komu frá BH en þeir voru 42. Frá TBR voru 36 skráðir, 10 frá Aftureldingu, 4 frá ÍA, 3 frá TBS, 2 frá KR og 2 frá Hamri. Mótið er næst fjölmennasta fullorðinsmót ársins á eftir Meistaramóti Íslands.


Í úrvalsdeild var eins og áður sagði Gerda Voitechovskaja sigursælust. Hún sigraði í einliðaleik kvenna, tvíliðaleik kvenna með Unu Hrund Örvar sem einnig er í BH og í tvenndarleik með Davíð Bjarna Björnssyni úr TBR. Davíð sigraði einnig í tvíliðaleik karla með Kristófer Darra Finnssyni úr TBR. Í einliðaleik karla sigraði Gústav Nilsson, TBR.


Þrír leikmenn sigruðu tvöfalt í 1.deild, BH-ingarnir Hrafnhildur Edda Ingvarsdóttir, Katla Sól Arnarsdóttir og Stefán Logi Friðriksson. Katla Sól sigraði í einliðaleik kvenna og tvíliðaleik kvenna með Hrafnhildi Eddu. Hrafnhildur Edda sigraði í tvenndarleik með Stefáni Loga og hann sigraði tvíliðaleik karla með Adam Elí Ómarssyni sem einnig er í BH. Einliðaleik karla sigraði Daníel Máni Einarsson úr TBR.


Í 2.deild var BH-ingurinn Helgi Valur Pálsson sigursælastur. Hann sigraði í einliðaleik karla og tvenndarleik með Elínu Ósk Traustadóttur úr BH. Tvíliðaleik kvenna sigruðu Snædís Sól Ingimundardóttir og Angela Líf Kuforji úr BH og tvíliðaleik karla Jón Sverrir Árnason og Jón Víðir Heiðarson sem einnig eru í BH. Siglfirðingurinn Sigurlaug Sara Kristjánsdóttir, TBS, sigraði einliðaleik kvenna.


Nánari úrslit mótsins má finna hér á tournamentsoftware.com.


Mótið var spilað á keppnismottum BH í beinni útsendingu á Youtube. BH-ingurinn Róbert Ingi Huldarsson hafði veg og vanda af útsendingunni og úrslitaþjónustunni tengdri henni sem hann forritaði sjálfur og er á heimsmælikvarða. Um 50 BH-ingar aðstoðuðu við undirbúning, framkvæmd og frágang að móti loknu en án þessa öfluga hóps væri ekki hægt að halda stórmót eins og þetta.


Þökkum leikmönnum, þjálfurum, áhorfendum, starfsfólki, dómurum, teljurum og öðrum sjálfboðaliðum kærlega fyrir frábæra helgi. Sérstakar þakkir fá einnig samstarfsaðilar BH fyrir að gefa glæsileg verðlaun sem að þessu sinni voru að verðmæti rúmlega 500 þúsund króna.


Myndir frá mótinu má finna hér á Facebook og eru fleiri væntanlegar á næstu dögum.


Gerda Voitechovskaja, BH, sigurvegari í einliða-, tvíliða- og tvenndarleik á Meistaramóti BH og RSL 2023.
Gerda Voitechovskaja, BH, sigurvegari í einliða-, tvíliða- og tvenndarleik á Meistaramóti BH og RSL 2023.



Gerda Voitechovskaja, BH, sigurvegari í einliða-, tvíliða- og tvenndarleik á Meistaramóti BH og RSL 2023.
Gerda Voitechovskaja, BH, sigurvegari í einliða-, tvíliða- og tvenndarleik á Meistaramóti BH og RSL 2023.

Comments


bottom of page