top of page
Search

Góð ferð til Danmerkur

Um síðustu helgi tók hópur íslenskra spilara þátt í alþjóðlega unglingamótinu Danish Junior Open í Farum í Danmörku. Keppt var í efstu þremur getustigum Dana í U11-U19 flokkunum, A, M (mæster) og E (elite). Keppendur voru um 460 talsins og komu frá öllum Norðurlöndunum og nokkrum öðrum Evrópulöndum. Í íslenska hópnum var 21 keppandi og 7 þjálfarar og fararstjórar. 13 keppendur komu frá BH, 4 frá TBS, 2 frá ÍA, 1 frá Tindastól og 1 frá TBR.


Íslensku keppendunum gekk mjög vel á mótinu, fengu marga góða leiki og frábæra reynslu við að keppa á erlendri grundu. Okkar fólk kom heim með fullt af verðlaunum og náði Steinþór Emil þeim einstaklega góða árangri að sigra þrefalt í U17-U19A flokknum.


Verðlaunahafar frá Íslandi:

  • Steinþór Emil Svavarsson, 1.sæti í einliða, tvíliða og tvenndarleik í U17-U19A

  • Rakel Rut Kristjánsdóttir, 1.sæti í tvíliðaleik og 2.sæti í einliðaleik í U17-U19A

  • Natalía Ósk Óðinsdóttir, 1.sæti í tvíliða- og tvenndarleik í U17-U19A

  • Jón Sverrir Árnason, 1.sæti í tvíliðaleik í U17-U19A

  • Máni Berg Ellertsson, 2.sæti í einliða, tvíliða og tvenndarleik í U15M

  • Halla Stella Sveinbjörnsdóttir, 2.sæti í tvenndarleik í U15M

  • Stefán Logi Friðriksson, 1.sæti í einliðaleik og 2.sæti í tvíliðaleik í U15A

  • Rúnar Gauti Kristjánsson, 2.sæti í tvíliðaleik í U15A

  • Elín Helga Einarsdóttir, 3.-4.sæti í tvíliðaleik í U15A

  • Lena Rut Gígja, 3.-4.sæti í tvíliðaleik í U15A

  • Sigurlaug Sara Kristjánsdóttir, 3.-4.sæti í tvíliðaleik í U15A

  • Hrafnhildur Edda Ingvarsdóttir, 3.-4.sæti í tvíliðaleik í U15A

  • Erik Valur Kjartansson, 2.sæti í tvenndarleik í U11A

Nánari úrslit má finna á tournamentsoftware.com og myndir á Facebook síðu BH.


Hópurinn flaug til Danmerkur fimmtudaginn 26.maí og náði að taka æfingu á fimmtudagskvöldinu. Keppni hófst svo strax á föstudag en þá var keppt í einliðaleik. Á laugardag var keppt í tvíliða- og tvenndarleik en á sunnudag voru undanúrslit og úrslit. Á sunnudagskvöld náðist að fagna góðum árangri með ferð í Tívolí en svo var haldið heim á leið á mánudagsmorgun.


Mótið var spilað í fjórum höllum, tveimur í Farum Arena þar sem spilað var á mottum og svo í badmintonhöllum hjá Farum Badminton og Værlöse Badminton. Það var krefjandi fyrir þjálfara að ná að fylgjast með á öllum stöðum en náðist með góðri skipulagningu og öflugum hópi.


Mótshaldarar buðu uppá gistingu í skólastofum við Farum Badmintonhöllina og mat í mötuneyti skólans. Allt skipulag hjá Dönunum var til fyrirmyndar og maturinn góður.


Danish Junior Open hentar vel fyrir íslenska spilara sem eru í fremstu röð í sínum aldursflokkum á Íslandi og mælum við klárlega með að sem flestir setji það á dagatalið fyrir næsta ár. Vefsíða mótsins er danishjunioropen.dk.


Þjálfarar og fararstjórar voru mjög ánægðir með íslenska hópinn. Einstaklega dugleg í löngu ferðalagi með flugi, lest, metro og strætó. Samheldin, tillitssöm og hvetjandi og bara sérstaklega skemmtileg.



Comments


bottom of page