top of page
Search

Fjölmennt og vel heppnað Meistaramót BH og RSL um helgina

Um helgina fór Meistaramót BH og RSL fram í Íþróttahúsinu við Strandgötu og var keppt í úrvals, 1. og 2.deild fullorðinna. Flest af besta badmintonfólki landsins tók þátt en mótið er hluti af mótaröð BSÍ og gefur stig á styrkleikalista þess. Rúmlega 90 leikmenn voru skráðir til keppni sem gerir mótið fjölmennasta fullorðinsmótið sem spilað hefur verið á þessu ári á mótaröðinni.


Spilaðir voru fjölmargir spennandi og skemmtilegir leikir um helgina enda til mikils að vinna því heildarverðmæti verðlauna á mótinu sem samstarfsaðilar BH gáfu var um 230 þúsund krónur. Þrír leikmenn náðu þeim frábæra árangri að sigra tvöfalt: Daníel Jóhannesson, TBR, sigraði í einliða- og tvenndarleik í úrvalsdeild, Sigríður Árnadóttir, TBR, sigraði í tvíliða- og tvenndarleik í úrvalsdeild og Stefán Steinar Guðlaugsson, BH, sigraði í tvíliða- og tvenndarleik í 2.deild.


Strandgatan er alltaf glæsileg í badmintonsparifötunum
Strandgatan er alltaf glæsileg í badmintonsparifötunum

Eftirfarandi BH-ingar unnu til verðlauna á mótinu:

 • Róbert Ingi Huldarsson, 2.sæti í einliðaleik í úrvalsdeild

 • Una Hrund Örvar, 2.sæti í tvenndarleik í úrvalsdeild

 • Rakel Rut Kristjánsdóttir, 1.sæti í einliðaleik í 1.deild

 • Orri Örn Árnason, 1.sæti í tvíliðaleik í 1.deild

 • Askur Máni Stefánsson, 2.sæti í tvíliðaleik í 1.deild

 • Guðmundur Adam Gígja, 2.sæti í tvíliðaleik í 1.deild

 • Stefán Steinar Guðlaugsson, 1.sæti í tvíliða- og tvenndarleik í 2.deild

 • Úlfheiður Embla Ásgeirsdóttir, 1.sæti í tvenndarleik í 2.deild

 • Jón Sverrir Árnason, 1.sæti í tvíliðaleik í 2.deild

 • Katla Sól Arnarsdóttir, 2.sæti í einliðaleik í 2.deild

 • Elín Ósk Traustadóttir, 2.sæti í tvíliðaleik í 2.deild

 • Lena Rut Gígja, 2.sæti í tvíliðaleik í 2.deild

Nánari úrslit má finna hér á tournamentsoftware.com.


Aðeins fimm klukkustundum áður en keppni átti að hefjast var gefin út ný reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar þar sem fram kom að aðeins 50 máttu koma saman. Sem betur fer var hægt að skipta keppendum niður í hólf með sitthvorum inngangi og selernum og því þurfti ekki að aflýsa keppninni. Því miður þurfti þó að banna áhorfendur en bein útsending á Youtube sá um að halda áhugasömum upplýstum.


Þrátt fyrir mikið stress rétt fyrir mót vegna sóttvarnarreglna gekk framkvæmdin mjög vel og fékk félagið mikið hrós fyrir glæsilega umgjörð og gott skipulag. Spilað var á keppnismottum BH sem iðkendur í keppnishópi BH sáu um að setja upp ásamt þjálfurum, glæsileg verðlaun veitt í öllum flokkum, lifandi úrslit á livepoints.net og allir leiki í beinni útsendingu á Youtube rás BH. Það er úrvalsdeildarleikmaðurinn okkar Róbert Ingi Huldarsson sem bjó til úrslitakerfið ásamt félaga sínum Þórði Ágústssyni en hann sá einnig til þess að öllum leikjum var streymt í beinni útsendingu.


Allir leikir voru í beinni útsendingu á Youtube og hægt að fylgjast með stöðunni í hverjum leik um leið.
Allir leikir voru í beinni útsendingu á Youtube og hægt að fylgjast með stöðunni í hverjum leik um leið.

Þökkum öllum sem komu að undirbúningi og framkvæmd mótsins kærlega fyrir sitt framlag og leikmönnum fyrir þátttökuna.


Myndir frá mótinu má finna á Facebook og Instagram.


Hluti af stórglæsilegum verðlaunum sem veitt voru á mótinu. Heildarverðmæti verðlauna var um 230 þúsund krónur.
Hluti af stórglæsilegum verðlaunum sem veitt voru á mótinu. Heildarverðmæti verðlauna var um 230 þúsund krónur.


Samstarfsaðilar Meistaramóts BH og RSL 2021
Comments


bottom of page