top of page
Search

Fjölgaði um 15% á sumarnámskeiðum milli ára

Sumarnámskeið BH voru haldin í 10. sinn í sumar í Strandgötunni. Námskeiðin verða vinsælli og vinsælli með hverju sumri. Í ár voru 202 börn skráð til þátttöku, 15% fleiri en í fyrra. Því miður komust ekki allir að sem vildu og var biðlisti allar fimm námskeiðsvikurnar.


Boðið var uppá námskeið fyrir bæði byrjendur og lengra komna í badminton og byrjendur í borðtennis. Lang flestir völdu að vera allan daginn og prófa því bæði badminton og borðtennis en líka var hægt að vera hálfan daginn og fara þá bara í eina grein. En ekki var einungis farið í badminton og borðtennis á námskeiðunum, útivist og ýmsir leikir og þrautir voru einnig á dagskrá.


Allur matur var innifalinn í námskeiðsgjaldinu og því þurfti ekki að koma með nesti sem mikil ánægja var með á meðal foreldra. Starfsmenn BH þau Böðvar, Otta og Þórunn sáu um matinn, ávexti í hléum fyrir og eftir hádegi og léttan hádegisverð.


Yfirþjálfarar á námskeiðunum voru badmintonþjálfararnir og úrvalsdeildarleikmennirnir Sólrún Anna Ingvarsdóttir og Una Hrund Örvar. Þeim til aðstoðar voru þeir Gabríel Ingi Helgason og Jón Sverrir Árnason sem hafa starfað við aðstoðarþjálfun hjá BH undanfarin misseri og Anna Lilja Sigurðardóttir íþróttafræðingur og badmintonþjálfari. Þá fékk félagið einnig til starfa við námskeiðin átta ungmenni í gegnum Vinnuskóla Hafnarfjarðar á aldrinum 15-17 ára en það voru þau Jón Víðir, Sunna Katrín, Stormur Sær, Lena Rut, Þórdís María, Yuna Ír, Elíana Ísis og Guðmar Gauti.


BH þakkar öllum þeim sem komu að sumarnámskeiðunum þetta árið fyrir sitt framlag og Hafnarfjarðarbæ fyrir stuðninginn. Námskeiðin eru góð þjónusta við foreldra sem þurfa að finna verkefni fyrir börn sín í sumarfríinu, fín kynning fyrir félagið og frábær þjónusta við iðkendur sem vilja halda sér við í sumarfríinu.


Það var líf og fjör í Strandgötu í sumar. Salurinn fullur af krökkum í badminton, borðtennis og leikjum.

Hér fyrir neðan eru svo nokkrar svipmyndir frá námskeiðunum í sumar.





Comments


bottom of page