BH-ingarnir Hrafnhildur Edda Ingvarsdóttir, Halla Stella Sveinbjörnsdóttir og Katla Sól Arnarsdóttir voru valdar í U19 landsliðið sem keppti í liðakeppni Heimsmeistaramóts unglinga í síðustu viku. Kenneth Larsen, landsliðsþjálfari, valdi átta leikmenn í liðið en hinir fimm komu allir frá TBR. Anna Lilja Sigurðardóttir framkvæmdastjóri og þjálfari hjá BH var fararstjóri í ferðinni.
Mótið fór fram í Spokane í Washingtonfylki í Bandaríkjunum og tóku 40 lönd þátt. Íslenska liðið var í feikna sterkum riðli með Tælandi, Bandaríkjunum, Slóveníu og Peru og tapaði öllum sínum leikjum 5-0. Eftir riðlakeppnina var leikið gegn öðrum liðum sem einnig voru í 5.sæti í sínum riðli og voru leikirnir þá mun jafnari. Viðureign Íslands gegn Tahítí tapaðist 3-2 en þar vantaði aðeins herslumuninn að Ísland tæki sigurinn því einliðaleikur karla tapaðist 30-29 í oddalotu. Ísland sigraði svo Georgíu nokkuð örugglega 5-0 í viðureign um 37.sætið á mótinu. Tvö lönd voru forfölluð og því fékk liðið aðeins 2 leiki í viðureign um sæti en ekki 3 eins og áætlað var. Öll úrslit mótsins má finna hér.
Að keppni lokinni tóku leikmenn námskeið á vegum alþjóða ólympíusamhjálparinnar, IOC Athlete365 Career+, og fengu kynningu á námskeiðum á vegum alþjóða badmintonsambandsins, BWF. Einnig horfði liðið saman á undanúrslit og úrslit mótsins og fengu leikgreininga verkefni frá landsliðsþjálfara.
Þrátt fyrir mikið af erfiðum leikjum gegn sterkari andstæðingum var ferðin mjög lærdómsrík fyrir okkar fólk enda allir bestu leikmenn heims í þeirra aldursflokki á svæðinu og umgjörðin með því besta sem gerist. Keppt var í nýrri og glæsilegri íþróttahöll sem ber nafnið the Podium og gist á hóteli í 5 mínútuna göngufjarlægð frá keppnisstaðnum.
Einstaklingskeppni mótsins hófst í dag og stendur fram á næstu helgi. Íslensku leikmennirnir taka ekki þátt í henni og eru nú á heimleið frá Bandaríkjunum. Ferðasögu liðsins má finna hér á Instagramsíðu Badmintonsambandins.
Leikmenn og fjölskyldur þeirra þurftu að greiða helming kostnaðar við ferðina á móti BSÍ en BH-ingarnir fengu góðan stuðning frá Íþróttabandalagi Hafnarfjarðar. Þá fengu leikmenn fatnað frá RSL til að ferðast og keppa í. Þökkum öllum þessum aðilum fyrir stuðninginn.
Comentarios