top of page
Search

Þrefaldur sigur á Íslandsmóti liða

Um helgina fór Deildakeppni BSÍ, Íslandsmót fullorðinsliða í badminton, fram í TBR húsunum við Gnoðarvog. Badmintonfélag Hafnarfjarðar sendi sex lið til keppni, 2 í meistaradeild, 1 í A deild og 3 í B deild, og átti auk þess fulltrúa í einu sameiginlegu liði með TBR í meistaradeild.


Sá magnaði árangur náðist að BH sigraði í öllum þremur deildunum. Þetta var í fyrsta sinn sem BH sigrar í efstu deild en reglulega undanfarin ár hefur náðst sigur í A og B deildinni.


Sigurlið BH í meistaradeildinni 2020.
Sigurlið BH í meistaradeildinni 2020.

Í meistaradeild kepptu 6 lið í einum riðli þar sem öll lið spiluðu gegn hvert öðru. Í hverri viðureign tveggja liða voru 8 leikir: 3 einliðaleikir karla, 1 einliðaleikur kvenna, 2 tvíliðaleikir karla, 1 tvíliðaleikur kvenna og 1 tvenndarleikur. Lið BH vann alla sína leiki nema einn sem var jafntefli gegn liðinu TBR gamli skólinn sem var í öðru sæti í keppninni.


Í liði BH sem sigraði í meistaradeild voru þau Erla Björg Hafsteinsdóttir, Gerda Voitechovskaja, Davíð Phuong, Joshua Apiliga, Róbert Ingi Huldarsson, Sigurður Eðvarð Ólafsson og Tómas Björn Guðmundsson. Gerda hefur verið búsett á Íslandi síðan í haust og kom hún til liðs við félagið í janúar og var m.a. með öðrum keppendum BH á landsliðsæfingu í Íþróttahúsinu við Strandgötu í byrjun febrúar. Joshua sem kemur frá Skotlandi keppti á RSL Iceland International sem fram fór í lok janúar í TBR-húsinu og varð það úr að hann gengi til liðs við BH og keppti með okkur í Deildarkeppninni. Löng hefð er fyrir því að erlendir keppendur hafa tekið þátt í Deildakeppni BSÍ og í mótareglum um Deildakeppni BSÍ kemur fram að í hverri viðureign tveggja liða megi tefla fram að hámarki tveimur erlendum ríkisborgurum. Því vísar félagið því algerlega á bug að skráning þeirra í félagið og keppnina sé eitthvað vafasöm. BH hefur ávallt lagt ríka áherslu á að taka vel á móti nýjum þátttakendum í félagið og fagnar hverjum þeim keppenda sem hefur áhuga á að taka þátt í starfi félagsins og auka hróður badmintoníþróttarinnar.


Sigurlið BH í A deildinni
Sigurlið BH í A deildinni

Í A deildinni voru fimm lið sem tóku þátt og spiluðu öll liðin við alla. Í hverri viðureign tveggja liða voru spilaðir átta leikir: 2 einliðaleikir karla, 1 einliðaleikur kvenna, 2 tvíliðaleikir karla, 1 tvíliðaleikur kvenna og 2 tvenndarleikir. Lið BH sigraði allar sínar viðureignir nema eina sem var jafntefli gegn sameiginlegu liði Hamars, Aftureldingar og TBR. Í BH liðinu voru Anna Lilja Sigurðardóttir, Askur Máni Stefánsson, Borgar Ævar Axelsson, Elín Ósk Traustadóttir, Gabríel Ingi Helgason, Irena Ásdís Óskarsdóttir, Kristian Óskar Sveinbjörnsson, Kristján Arnór Kristjánsson, Rakel Rut Kristjánsdóttir og Steinþór Emil Svavarsson.


Sigurlið BH í B-deildinni
Sigurlið BH í B-deildinni

Í B-deild voru sex lið sem spiluðu öll við alla og var þar líkt og í A-deild átta leikir í hverri viðureign: 2 einliðaleikir karla, 1 einliðaleikur kvenna, 2 tvíliðaleikir karla, 1 tvíliðaleikur kvenna og 2 tvenndarleikir. Liðið BH vinder sigraði deildina en í því voru þau Halla Stella Sveinbjörnsdóttir, Lilja Berglind Harðardóttir, Natalía Ósk Óðinsdóttir, Emil Hechmann, Georg Andri Guðlaugsson, Guðmundur Adam Gígja, Jón Sverrir Árnason og Rafn Magnússon.


Stór hluti BH-inganna sem kepptu í Deildakeppni BSÍ 2020.
Stór hluti BH-inganna sem kepptu í Deildakeppni BSÍ 2020.

Fjöldi keppenda frá BH var samtals um 50 talsins og náðist þessi skemmtilega mynd af stórum hluta hópsins í upphafi móts.Því var vel fagnað á sunnudagskvöld að hafa náð að vinna alla bikarana sem í boði voru um helgina. Á meðfylgjandi mynd eru hluti af hópnum sem tók þátt fyrir hönd BH á mótinu með verðlaunin.

Comments


bottom of page