Við flytjum ykkur þær gleðifréttir að æfingar hjá iðkendum á grunnskólaaldri geta hafist aftur á morgun miðvikudag 18.nóvember. Æfingataflan verður mjög svipuð og hún var fyrir hlé en búið er að bæta við nokkrum aukaæfingum sem verða í boði þar til eldri aldurshóparnir mega byrja aftur. Miðað við stöðuna í dag virðist það verða 2.desember. Sjá töfluna hér fyrir neðan.
Eftirfarandi sóttvarnarreglur gilda í Strandgötu næstu tvær vikur:
Þvo og spritta hendur fyrir og eftir æfingar
Engir áhorfendur leyfðir í húsinu og foreldrar sem keyra sín börn þurfa að bíða úti í bíl
Badmintoniðkendur ganga inn um dyr sem snýr að sjónum en iðkendur í borðtennis og dansi um dyr sem snúa út að kirkjunni
Ekki skal mæta í hús fyrr en 5-10 mínútum fyrir æfingu og yfirgefa húsið strax að henni lokinni.
Fara skal beint inn í búningsklefa þegar komið er í hús og bíða þar eftir að vera kölluð inní sal. Þjálfarar og starfsmenn taka vel á móti öllum og leiðbeina í hvaða klefa hver hópur á að fara.
Allir þurfa að koma með brúsa með vatni með sér. Ekki má fá sér að drekka beint úr krönunum vegna smithættu.
Iðkendur í 8.-10.bekk skulu vera með grímur þegar þeir koma í hús og vera með þær þar til æfing þeirra hefst. Setja þarf grímuna á sig strax að æfingu lokinni. Þetta er gert til að minnka líkur á smiti þegar fólk mætist í anddyri og á göngum. Mælt er með að iðkendur í 5.-7.bekk geri slíkt hið sama þó það sé ekki skilda.
Þjálfarar verða með grímur á öllum æfingum.
Sjá nánari reglur sem gilda um badmintonæfingar hér á badminton.is.
Minnum að lokum á að í dag, þriðjudag 17.nóvember, er síðasti dagurinn til að skila til okkar útfylltum skráningarblöðum í BH áskoruninni. Senda þarf á bhbadminton@hotmail.com fyrir miðnætti í kvöld. Dregið verður úr glæsilegum verðlaunapotti á morgun miðvikudag. Þá verður einnig kynnt ný áskorun fyrir þau sem þurfa áfram að stunda sínar æfingar heima við.
Hlökkum til að sjá grunnskólanemendur í Strandgötu á morgun og sendum baráttukveðjur til þeirra eldri, þetta er alveg að hafast hjá okkur!
Comments